Samþykktir fyrir Kaupmannasamtök íslands


I. Kafli.

Heiti, heimili og varnarþing.

1. gr.

Nafn samtakanna er Kaup­manna­sam­tök Ís­lands (skamm­stafað KÍ.).

Heimili þeirra, varnarþing og skrifstofa er í Reykjavík.

II. Kafli.

Tilgangur samtakanna.

2. gr.

Til­gangur KÍ er :

1) Að stuðla að framgangi verslunar og verslunarmenntunar í landinu og koma eftir aðstæðum að varðveislu hvers konar menningarverðmæta sem tengst hafa verslunarsögu landsins, m.a. með styrkveitingum til safna og til útgáfustarfsemi.

2) Að hafa umsjón með eignum samtakanna og

ávöxtun fjármuna þeirra í samræmi við skýra

fjárfestingastefnu.

3) að gæta hagsmuna félagsmanna í málum sem

tengjast störfum þeirra sem kaupmenn.

III. Kafli.

Aðild.

3. gr.

Aðilar að KÍ eru þeir félagsmenn sem skráðir eru í samtökin við gildistöku þessara samþykkta skv. félagaskrá.

4. gr.

Aðilar að KÍ geta orðið fyrrverandi kaupmenn og rekstraraðilar, sem áður voru félagar í KÍ svo og einstaklingar, sem starfa við verslunarrekstur enda uppfylli þeir inntökuskilyrði 6. gr.

Aðalfundur getur kosið þá til trúnaðarstarfa fyrir samtökin.

5. gr.

Inn­töku­beiðnir skulu vera skrif­legar og lagðar fyrir stjórn KÍ til sam­þykktar. Með inn­töku­beiðni skulu fylgja upp­lýsingar um stjórn, stjórn­endur, starfs­svið, starfs­menn, launa­greiðslur, veltu og aðrar þær upp­lýsingar sem nauðsyn­legar eru vegna starf­semi sam­takanna skv. lögum þessum. Farið skal með öll gögn sem trúnaðar­mál.

6.gr.

Inn­töku­beiðni telst sam­þykkt ef meirihluti stjórnar samþykkir hana. Synjun um aðild má skjóta til aðalfundar, en þá þarf 2/3 hluta atkvæða til að hún fáist samþykkt. Um boðun slíks fundar vísast til 12. gr.

IV. Kafli

Úrsögn og brottvikning.

7. gr.

Heimilt er að segja sig úr KÍ frá áramótum að telja með minnst sex mánaða fyrirvara. Úrsögn skal vera skrifleg.

Stjórn KÍ getur vikið félaga úr samtökunum vegna vanskila við samtökin, brotum gegn lögum samtakanna, eða ef félagi uppfyllir ekki lengur skilyrði aðildar.

Tillaga um brottvikningu félagsmanns eða félags telst samþykkt ef meirihluti stjórnarmanna greiða henni atkvæði.

Ákvörðun um brottvikningu má skjóta til aðalfundar, en þá þarf 2/3 hluta atkvæða til að breyta ákvörðun stjórnar. Um boðun slíks fundar vísast til 12. gr.

Úrsögn eða brottvikning leysir ekki aðila undan greiðslu félagsgjalda eða annarra skuldbindinga sem á honum kunna að hvíla.

V. Kafli.

Árgjöld, fjárhagsáætlun og fjárfestingarstefna.

9. gr.

8.gr.

Starfsár KÍ er á milli aðalfunda, en reikningsárið er lmanaksárið.

Formaður leggur fjárhagsáætlun fyrir fund í stjórn í febrúarmánuði ár hvert.

Stjórn KÍ skal setja almennar reglur varðandi fjárfestingarstefnu samtakanna. Ákvarðanir stjórnar á ráðstöfun fjármuna samtakanna skal ávallt vera í samræmi við fyrirliggjandi fjárfestingarstefnu.

Fjárfestingarstefna skal reglulega kynnt félagsmönnum. Hún skal birt á aðgengilegan hátt fyrir félagsmenn.

Fjárfestingarstefna skal endurskoðuð þegar tilefni er til og þegar tillögur um breytingar berast stjórninni. Breytingar á fjárfestingarstefnu samtakanna skulu kynntar félagsmönnum sérstaklega á aðalfundi og tillögur um slíkar breytingar skulu afgreiddar á sama vettvangi.

Stjórn skal sjá til þess að ætíð sé í gildi skýr fjárfestingarstefna sem samþykkt hefur verið á aðalfundi.

9. gr.

Aðalfundur ákveður árgjöld til KÍ. Gjalddagi árgjalds er einu sinni á ári.

Stjórn getur gert tillögur fyrir aðalfund um þóknun til formanns og annarra stjórnarmanna fyrir stjórnarstörf.

VI. Kafli.

Atkvæðaskrá.

10. gr.

Um hver áramót skal útbúin atkvæðaskrá sem gildi tekur 1. febrúar ár hvert og grundvallast á greiddum árgjöldum næstliðins reikningsárs. Gildir eitt atkvæði fyrir félagsmann skráðan í atkvæðaskrá.

VII. Kafli.

Aðalfundur, nefndir o.fl.

11. gr.

Aðalfund KÍ skal halda fyrir lok aprílmánaðar ár hvert og hefur hann æðsta vald í málefnum samtakanna, nema kveðið sé á um annað í lögum þessum. Boða skal félagsmenn til aðalfundar bréflega með minnst 2ja vikna fyrirvara. Aðalfundur skal jafnframt auglýstur með minnst 5 daga fyrirvara. Stjórn annast undirbúning aðalfundar. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað.

Tillögur um breytingar á samþykktum og/eða fjárfestingarstefnu KÍ, ef fyrir liggja, skulu fylgja fundarboði.

Skylt er að halda auka aðalfund ef helmingur meðlima samtakanna krefst þess.

Rétt til fundarsetu hafi allir skuldlausir félagsmenn samtakanna. Einnig heiðursfélagar samtakanna, þótt hættir séu rekstri, og starfsfólk samtakanna og hafa þessir aðilar málfrelsi og tillögurétt. Þá hafa gestir stjórnar KÍ heimild til fundarsetu með málfrelsi.

Formaður KÍ setur aðalfund og tilnefnir fundarstjóra og fundarritara. Fundarstjóri skal athuga í fundarbyrjun hvort löglega hafi verið til fundarins boðað og lýsa því síðan yfir, hvort svo sé.

12. gr.

Á dagskrá aðalfundar skulu vera a.m.k. þessi mál:

1. Skýrsla formanns um starfsemi samtakanna fyrir

liðið starfsár.

2. Reikningar síðasta starfsárs með athugasemdum

og áritun endurskoðanda.

3. Kosinn formaður KÍ til tveggja ára. Einnig 4

meðstjórnendur til tveggja ára.

4. Kosinn löggiltur endurskoðandi til eins ár.

5. Umræður og atkvæðagreiðsla um önnur mál.

13. gr.

Heimilt er atkvæðisbærum félagsmanni að fela öðrum félagsmanni að fara með atkvæði sín á aðalfundi, enda sé það gert með staðfestu símskeyti eða á annan jafntryggan hátt og að sá sem við tekur sé einnig með rétt til setu á aðalfundi. Stjórn KÍ getur heimilað beina atkvæðagreiðslu með rafrænum hætti, enda sé beitt dulkóðun við atkvæðagreiðslu.

Viðhafa skal skriflega atkvæðagreiðslu, komi fram ósk þar um.

Framboð og tillögur um formann og aðra stjórnarmenn skulu liggja fyrir 7 dögum áður en aðalfundur hefst.

Stjórn KÍ skal skipa ritara sem heldur gerðarbók um það sem gerist á aðalfundi, þar með fundarsamþykktir og skal fundargerð undirrituð af fundarritara.

VIII. Kafli.

Skipulag og stjórn samtakanna.

14. gr.

Stjórnin fer með æðsta vald í málefnum KÍ milli aðalfunda innan þeirra marka sem lög þessi setja. Stjórnin skal taka til meðferðar öll þau mál er KÍ varða.

Stjórn er skipuð 5 mönnum, þ.m.t. formanni og varaformanni. Stjórnin skiptir með sér verkum að öðru leyti.

Formaður stýrir fundum stjórnar, en varaformaður í forföllum hans. Skylt er að láta atkvæðagreiðslur fara fram skriflega sé þess óskað og hefur hver stjórnarmanna eitt atkvæði. Stjórn er ályktunarbær, ef meirihluti hennar er mættur á fundi. Ekki geta fleiri fulltrúar en einn frá hverju fyrirtæki innan vébanda KÍ átt sæti samtímis í stjórn.

15. gr.

Fundum stjórnar skal markaður reglulegur fundartími og skal formaður annast boðun þeirra. Fund skal halda ef minnst tveir stjórnarmenn óska þess.

Stjórnin getur boðað til almennra félagsfunda.

Halda skal fundargerðarbók um það, sem gerist á fundum stjórnar. Skulu fundargerðir í bókinni undirritaðar af viðstöddum stjórnarmönnum. Fundargerð skal send stjórnarmönnum.

Skal fundargerðin borin upp til samþykkis á næsta fundi. Þannig undirrituð og samþykkt fundargerð verður ekki véfengd síðar.

IX. Kafli.

Framkvæmdastjóri / starfsmaður.

16. gr.

Stjórn KÍ getur ráðið starfsmann eða framkvæmdastjóra samtakanna. Framkvæmdastjóri/starfsmaður annast daglegan rekstur samtakanna í samræmi við mótaða stefnu og ákvarðanir stjórnar. Framkvæmdastjóri er ekki kjörgengur sem stjórnarmaður í samtökunum.

Stjórn KÍ skal að öðru leyti ráða skipulagi á starfsemi samtakanna.

X. Kafli.

Nefndir og fulltrúar.

17.gr.

Fjöldi nefnda og hlutverk þeirra heyrir undir ákvörðun stjórnar.

Stjórn kýs m.a. í eftirtaldar nefndir:

- Laganefnd; formann og tvo nefndarmenn

- Heiðursmerkjanefnd; formann og tvo nefndarmenn

- Kjörnefnd; formann og tvo nefndarmenn

Stjórn tekur ákvörðun um skipun fulltrúa í stjórnir og ráð annarra samtaka í nafni KÍ, m.a.:

- Endurvinnslan

- Lífeyrissjóður verslunarmanna

- Samstarfsnefnd verslunarbrautar

Borgarholtsskóla

- Pokasjóður verslunarinnar

XI. Kafli.

Ársreikningar.

18. gr.

Kjörinn löggiltur endurskoðandi skal annast endurskoðun reikninganna og kanna sjóði KÍ í árslok, en skylt er að hafa reikningana tilbúna í marslok ár hvert.

Viku fyrir aðalfund skulu endurskoðaðir reikningar liggja frammi félagsmönnum til kynningar.

XII. Kafli.

Ýmis ákvæði.

19. gr.

Þyki rétt og nauðsynlegt að leggja KÍ niður, fer um tillögur þar að lútandi eins og um lagabreytingar (sbr.21. gr.). Fundur sá sem samþykkir löglega að leggja KÍ niður, kveður einnig á um ráðstöfun eigna þeirra og skulda. Til samþykkis því sem að framan greinir þarf samþykki ¾ hluta atkvæðisbærra félagsmannna KÍ.

20. gr.

Tillögur til breytinga á lögum þessum skulu sendar til stjórnar KÍ, er leggur þær fyrir aðalfund. Tillögurnar skulu hafa borist a.m.k. fjórum vikum fyrir aðalfund, til þess að hægt sé að geta þeirra í fundarboði, enda verða engar lagabreytingar samþykktar svo lögmætt sé, nema þeirra hafi verið getið.

Til samþykktar lagabreytinga þarf 2/3 greiddra atkvæða atkvæðisbærra félagsmanna á aðalfundi.

21. gr.

Mál vegna innheimtu félagsgjalda og vegna ágreinings um framkvæmd laga þessara skulu rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

22. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á framhalds aðalfundi 22. nóvember 2005

með breytingum á aðalfundi 30. apríl 2008.

Skrifstofa okkar er opinn alla virka daga frá klukkan 9-14 á 13 hæð í Húsi verslunarinnar Kringlunni 7.


Innskráning